Íslenskir unglingar misnotaðir til áfengisauglýsinga!

Ég ætla að segja smá ör-sögu af græðgi og siðblindu.

Ég á börn í skóla, fleiri en eitt reyndar.
Það elsta er komið í menntaskóla og fer á skólaböll eins og lífsglaðir krakkar gera til að skemmta sér. En á þessum skólaböllum eru greinilega fleiri en nemendurnir og kennararnir. Ljósmyndarar frá heimasíðunni pose.is smokra sér þar inn, taka myndir af krökkunum (án þeirra leyfis) og setja þessar myndir síðan á heimasíðuna sína til þess eins að græða á því. Græða á því? Hvað meinar maðurinn, gætir þú sagt. Jú, því þessar myndir eru seldar undir áfengisauglýsingar. Sem dæmi skal nefnt að auglýsingar þessar eru gjarnan í öllum hornum myndanna og í þessu tilviki eru 3 af 4 auglýsinganna áfengisauglýsingar. Þegar ég skrifa áfengisauglýsingar þá á ég ekki við nafn á bjórtegund með orðinu léttbjór í míkróletri, ónei. Hér er ekki verið að pukrast með þetta hendur auglýst stórum stöfum Beefeater Premium Gin, Smirnoff og Jägermeister. Á myndinni eru síðan unglingarnir í svaka fjöri. Ekki spurðir um hvort þeir vilji: 1) Láta taka af sér mynd fyrir pose.is, 2) Auglýsa vörur ókeypis, 3) Gerast lögbrjótar með því að auglýsa áfengi.
Ofan á allt saman eru lang fæstir þessara unglinga með aldur til að kaupa áfengi. Síðan þegar krakkarnir skoða þessar myndir af sér og öðrum í svaka stuði er allt í kring verið að gefa í skyn að ástæðan fyrir því að svona gaman sé vegna þess að viðkomandi áfengistegundir séu hafðar um hönd. Skilaboðin eru skýr.
En af hverju skyldu nú áfengisinnflytjendur sjá sér hag í að auglýsa á þessari síðu? Jú auðvitað til að krakkarnir (sem eru enn jafn gamlir og þeir voru hér fyrr í greininni) kaupi þetta áfengi. Þeir eru sem sé að biðla til krakkanna sem hafa ekki aldur til að kaupa áfengi að gera það nú samt. Hvatning til lögbrots heitir það, er það ekki?
Tekið skal fram að öll áfengisneysla er að sjálfsögðu stranglega bönnuð á þessum skólaböllum og hefur ekkert vandamál verið með það.
Hvað skyldi nú kosta að auglýsa þar sem svona stóran og stæðilegan markhóp er að finna? Það liggur ljóst fyrir. Svo vitnað sé beint í heimasíðuna pose.is: "Watermark á öllum myndum er verðsett á 65.000 kr + vsk (miðast við tíu aura á flettingu) per mánuð". Hér er því um verulegar tekjur að ræða fyrir 2 Global ehf. sem rekur þessa síðu og einnig síðurnar 69.is, leikjaland.is og tveir.is en sú síða tengist við Fazmo sem var mikið umfjallað í fjölmiðlum fyrir nokkru. Séu teknar 300 myndir og hver mynd fær t.d. 500 skoðanir pr. mánuð gerir þetta 15,000 krónur pr. mánuð. Bara fyrir flettingar. Áfengisauglýsingin sjálf kostar síðan þessar 65,000.- Þetta eru verð fyrir utan virðisaukaskatt. Hér er því feit gullnáma. Siðferði þessara manna er ekkert.

Ég hef talað við Lögregluna sem vísar á Persónuvernd sem vísar á Umboðsmann barna sem vísar síðan á Neytendastofu. Allir eru sammála um að þetta sé verulega ógeðfellt en ekki virðist vera mikið um athafnir. Hvílíkur aumingjasakapur! Allir eru sammála um að þetta er lögbrot en samt er ekkert aðhafst. Ætli öðruvísi sé tekið á lögbrotum sem framin eru á netinu en í dagblöðum eða á skiltum og plaggötum?
Ég trúi því ekki að jón sé ekki sá sami og sér jón, frekar að dugleysi eða frekar ráðaleysi embætismanna sé um að kenna. En það er engin afsökun!

Það er lögreglan sem á að taka á lögbrotum. Það mun að sjálfsögðu draga verulega úr trausti almennings ef svona gróf lögbrot eru látin viðgangast á unglingum Íslands. En þetta eru bara krakkar, er ekki öllum sama....?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Mér finnst tími til kominn að foreldrar segji stopp. Þó svo ekkert sé gert varðandi áfengisauglýsingar þá hlýtur fjandakornið að vera hægt að koma í veg fyrir að krakkar séu notaðir í auglýsingar. 

Hver hleypir þessu liði inná böllin ? 

Þóra Guðmundsdóttir, 21.3.2007 kl. 15:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband