Írak - Íran, óskabrunnurinn?

Nú spyr maður sig hvort réttkjörnir fulltrúar Íslendinga; forsætisráðherra og ráðherrar ætli að lýsa yfir stuðningi við fyrirhugaða innrás Bandaríkjamanna í Íran, en flest bendir til þess að þangað muni Bush senda óvígan her til varnar friði, réttlæti og alþjóðaheill.

Haft er eftir Halldóri Ásgrímssyni að stuðningur við innrásina í Írak hafi verið tekinn á forsendum rangra upplýsinga, þ.e. að þar væru "weapons of mass destrucion" eins og Bússi sagði eða þaðan af verra. En þau fundust aldrei. Skyldi Saddam hafa selt þau? Til öryggis var hafist handa við að murka lífið úr innfæddum og þeim sem voru þar á mótþróaskeiðinu. Það hefur verið reynt oft áður hér í Evrópu með frekar litlum árangri. Það eru nú meiri íhaldsskarfarnir sem vilja ekki hafa útlendan her í landinu sínu, ég segi það nú bara.

Nú er að læra af reynslunni og láta ekki teyma sig eins og aula á foraðið í orðaflaumi hinna "rétthugsandi" heldur staldra við og hugsa sig um.

 

Hver man eftir laginu Viska Einsteins með Utangarðsmönnum?


Strætó klikkar ekki

Það eru skrýtnar fréttir sem maður les um strætó.

Allt virðist fyrir löngu vera komið í óefni í samgöngumálum Strætó bs.

Eru þetta einu leiðirnar sem Strætó bs. finnur til að auka þjónustu við borgarana?

Hækkun fargjalda um 6,7-33%.

Það munar nú um minna. Hækkunin ku vera helmingi hærri en verðbólguspáin fyrir 2007, eða svo segja pólítíkusar. Með þessu verður tryggt að enginn óbilaður tekur strætó nema kannski ringlaðir túristar. Ef svo vel vildi til að þeir væru pólskir þá gætu þeir kannski spurt pólska bílstjórann sinn til vegar. (Ég hef ekkert á móti pólskum eða annarslenskum).

En nú er komið nóg af þessari vitleysu. Fargjaldahækkun bætir ekki þjónustuna né eykur notkun strætisvagnanna. Og ef fólki fækkar sem notar strætó þá kemur enn minni peningur í kassann. Hvað þá? Hækka meira til að fá “meiri” pening?  Ég get ómögulega skilið af hverju við getum ekki lært af reynslu þeirra sem kunna að reka slíka þjónustu. Líta til reksturs slíkra félaga annars staðar t.d. á norðurlöndunum. Hvað gera þeir þar? Að vísu verður að taka tillit til þess að stórreykjavíkursvæðið er gríðarlega óhagkvæmt að rekar strætisvagnakerfi í. Hér hefur markvisst verið að breiða út byggð yfir sem stærsta svæðið, kannski til að Reykjavík geti montað sig af mesta flatarmáli byggðar. Á norðurlöndum er byggðin miklu þéttari og þ.a.l. miklu hagkvæmara að reka þar samgöngukerfi. En þar sem allir vilja eiga einbýlishús með bílskúra undir bílana sína með útsýn yfir óspillta sveitina spýtist byggðin út um allt eins og æxli. Það segir sig sjálft að við þannig aðstæður er miklu erfiðara að reka samgönguþjónustu. Það er augljóst að það þarf að fá í starfið mannskap sem tekur á þessu af einhverju viti. Ég mæli með að hingað verði fengnir ráðgjafar og sérfræðingar úr sambærilegum rekstri á norðurlöndunum og þeim svæðum er svipar til aðstæðna okkar (ég á nú að vísu ekki von á að þannig aðstæður séu víða).


DV, nýtt og betra?

Ég heyrði viðtal við Sigurjón M. Egilsson nýjan ritstjóra DV í útvarpinu í morgun.

Mér hefur alltaf fundist Sigurjón skemmtilegur og með athyglisverða sýn á samfélagið. Þegar hann t.d. skrifaði á baksíðu Fréttablaðsins þankapistla hér áður fyrr meðan allt lék í lyndi las ég alltaf greinarnar hans. Já, maður með góða réttlætiskennd og góðmenni.is

Nú er hann farinn að ritstýra DV sem man svo sannarlega fífil sinn fegri. Ég man hér þegar Dagblaðið var stofnað og keppti við Vísi um hylli Reykavíkurbúa. Flestir hrópuðu húrra þá.  All svakalega hefur nú DV breyst síðan þá og hefur það orðið að sorp- og lágmenningarblaði par exellance þannig að lyktina bar til Murmansk.

Sigurjón staðhæfir að DV nú ætli ekki að feta þennan stíginn og verðum við að treysta því að hann sé ekki að plata okkur. DV verði síðdegisblað með “nýrri” fréttir en morgunblöðin. Segir hann að helgarblaðið nýja hafi fengið góða móttökur (ég hef ekki sé það) og ætlar þessu nýja (gamla) blaði að vinna sér aftur inn virðingu íslendinga.

Gangi honum og öllum stafsmönnum DV vel. Batnandi blaði er best að lifa.


Áfram eldri borgarar

Það er sorglegt til þess að vita að eldri borgarar ætli mú að klúðra sínum málum eftirminnilega í næstu kosningum með því að taka ekki höndum saman heldur bjóða fram klofnir í tveimur aðskildum hópum.

Þeir, sem eins og ég styðja baráttu eldri borgara fyrir sjálfsögðum rétti sínum sjá fram á að atkvæðin gagnist ekkert í að koma hagsmunagæslumanni eldri borgara að á þing. Ekki með því að kljúfa hópinn í þvennt, ónei.

Það er vonandi að þessir ágætu hópar taki sig saman, kyngi þvermóðsku og stolti og taki höndum saman til hagsældar fyrir alla.


Pay and smile!

Ég las frétt á vef RÚV í dag um könnun Gallup fyrir Íbúðalánasjóð. Maður ætti nú ekki að vera hissa, orðinn þetta gamall (!) og allt það en SAMT! Ætla íslendingar aldrei að hætta dansinum kringum gullkálfinn?

Það kemur nefnilega í ljós að “fólk” vilji hærri íbúðalán þ.e. fimmtungur vill ótakmarkaða lánsfjárhæð og tveir/þriðju vilja 80-100% lán. Sem sé; það þarf ekki að eiga neitt til að geta fá allt.

Það má jú segja að að ef lánastofnunin góða metur lántaka-greyið svo að hann sé borgunarmaður fyrir tugum milljóna þá gott og vel. Fullorðið fólk verður að axla ábyrg á gjörðum sínum. Vextir í dag eru þannig að sá sem einu sinni tekur slíkt lán er kominn í höggstokkinn, búið að hífa upp, bara eftir að sleppa spottanum...Hvað gerir landinn nú? Hann fær lán fyrir einbýlishúsinu, kaupir allt nýtt innanstokks og byrjar búskap eins og kennt er í Innliti/útliti og í glanstímaritunum. Það þarf jú að toppa Nonna frænda annars ertu auli og sucker! Skítt með það þó launin séu 300 þúsund á mánuði fyrir hjónin. Jafnvel er líka keyptu nýr Lexus svo fólk haldi ekki að allur peningurinn hafi farið í húsakaupin. Allir hafa séð þessi dæmi hægri-vinstri. Síðan er dauðinn lapinn úr skel og allt volæðið bitnar á börnunum sem ekkert hafa til saka unnið. Þau eignuðust bara heimska foreldra sem teymd voru á höggstokkinn!

 


Bandaríski herinn fyrir alla!

Ekki blæs nú byrlega fyrir granna okkar í vestri.

Í Fréttablaðinu í dag er frétt þess efnis að bandaríski herinn sé sífellt að slaka á þeim kröfum sem gerðar eru til sjálfboðaliða svo þeir geti gengið inn um dauðans dyr á fullum launum með Clint Eastwood viprur í munnvikjunum.

Nú er nefnilega farið að taka menn með sakaferil í farteskinu; ýmsan skrautlegan brotaferil og heilsufarsvandamál.

Þessir menn standa sig örugglega með prýði þegar á reynir í baráttu við innfædda, blásnauða íbúanna.
Við skulum prísa okkur sæl með að búa hér á Fróni og þurfa ekki að hitta ekki fyrir slíka rólegheitamenn þegar adrenalínið sprautast up líkamann við aðstæður sem eru eins fjandsamlegar og hægt er. Þá er viðbúið að auðvelda lausnin sé að taka bara í gikkinn...eins og gert í bíó...


Geir Ólafs: Ekki af baki dottinn!

Það er greinilega mikið í Mogga í dag. Viðtal við Geir Ólafsson sem er þekktastur fyrir að reyna að herma eftir frægum erlendum (gömlum) söngvurum. Og ef ekki þá má minna á heilsíðuauglýsingu frá honum í blöðunum í fyrra til að koma honum í Eurovision.

Hann heldur því fram að vegna þess að honum hafi verið hafnað í undankeppni  söngvakeppni RÚV hafi íslendingar misst af stóra tækifærinu! Muna ekki menn hvernig hann sló í gegn síðast í undankeppni RÚV? En nóg um það.  Hans hjartans mál virðist vera að fá sem flesta til að dásama sig og dáðst að. 

í lokin eru landsmenn varaðir við að önnur heilsíðu auglýsing sé í farvatninu. Það verð ég að segja um hann Geir að hann er enginn meðaljón og þar á ég eingöngu við það að láta bera á sér. 

Ég veit ekki alveg af hverju ég er að skrifa þetta, þetta fer vafalaust eitthvað pent í taugarnar á mér... 


Frjálslyndi kommaflokkurinn

Skondin er grein í Mogga í dag eftir Gunnar Örn Örlygsson.

Þar virðist vera málið að benda þjóðinni á að Frjálslyndi flokkurinn sé eldrauður vinstri flokkur og ef menn menn eru ekki sannfærðir þá er nóg að benda á Kristinn H. Gunnarsson sem hafi "lengi verið kenndur við vinstri væng Framsóknarflokksins" (hættulegur) svo notuð séu örð Gunnars. "Eldrautt og skínandi langt til vinstri í búðum Frjálslynda flokksins". Ekki er ég viss um að Guðjón Arnar eða Magnús  Þór mundu nú flokka flokkinn sinn sem langt til vinstri. Önnur lýsingarorð myndi vafalaust koma þar við sögu.

Þetta er hins vegar dæmigert og jafnvel frekar litlaust innlegg í umræðuna nú með kosningadrauginn baulandi á gluggann.


Lífsgleði og kurteisi

Ég sá grein í Mogga í dag um námskeið sem Impra nýsköpunarstöð heldur með Eddu Björgvinsdóttir framarlega í flokki sem leiðbeinanda.

Edda segir: "Fólk getur komið í vinnuna sína rosalega fúlt, en getur líka kosið að umbreyta tilfinningum sínum á leiðinni í vinnuna og mætt glatt og fullt af orku í vinnuna. Þetta er list leikarans. Þetta er aftur á móti ekki á nokkurn hátt list vegna þess að allir eru að gera þetta alltaf. Við leikarar gerum þetta bara meðvitað og ég ætla að freista þess að kenna fólki að nota tækni leikarans meðvitað til þess að eiga gjöfulli mannleg samskipti."

Það er nú aldeilis kominn timi til að freista þessa að fækka þessu sjálfumglaða og hrokafulla liði sem meðhöndlar viðskiptavininn sem æluklessu á gangstétt.

Við skulum þó ekki öll breytast í Bibbu á Brávallagötunni...


Nútímamaðurinn

Oft líðum mér eins og ég hafi aldrei tíma til neins en er svo sem ekki að gera neitt nema að sinna eigin fjölskyldu og vinum. Ég er ekki að meina að að sé auðvelt eða skipti litlu máli. Síður en svo er það, þetta er það sem skiptir öllu!

En er þetta ekki dæmigert fyrir nútímamanninn; Ekki ætla ég við að ég verða þannig þegar ég verð eldri hugsaði ég þegar ég var yngri. Svona nokkuð átti bara við stressaða, óskipulagða og "gamla" samferðamenn. Hva margir hafa ekki sagt sisona við sjálfan sig í einrúmi á yngri árum: Ég ætla ekki að verða svona eins og hinir, daufur og samdauna öllu stessinu og amstrinu."  Maður er alltaf að reyna að sjá heildarmyndina (á útlensku: The Big Picture) en því meira sem maður pælir því fleiri gáttir og sprungur opnast inn nýjar víddir þroska og fróðleiks.  Smá fróðleikur kallar á meiri fróðleik.

En það er skíma í myrkrinu og það að sjá bjálkann í eigin auga og þ.a.l. að reyna að gera það sem þykir rétt,  það sýnir að það er tilgangur og bjartsýni.

Og er ekki batnandi manni best að lifa? Ég er að reyna hvað ég get til að falla ekki í það að verða óvirkur félagsmaður í samfélaginu.

Það má kannski sjá með tilvist þessarar síðu hér. 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband